Roði í nára!

Hef verið með roða í náranum lengur en mér líkar. Einnig á sama tíma hefur vaxið tota ca. 1 sentimetri að lengd vinstramegin á innanverðu lærinu.
Hvað á ég á gera, eru einhver ráð sem þið getið gefið mér?

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Líklega er um sveppasýkingu að ræða en það er nokkuð algengt vandamál á þessu svæði. Sveppir þrífast í hlýju, röku umhverfi en slíkar aðstæður eru einmitt til staðar á nárasvæðinu. Þú skalt passa að halda svæðinu vel hreinu og þurru og skipta um nærbuxur daglega. Þú getur einnig keypt þér sveppakrem í apóteki án lyfseðils sem þú skalt bera á svæðið samkvæmt leiðbeiningum og þá ætti roðinn að hverfa.

Varðandi totuna sem þú lýsir er erfitt að segja til um hvað þar er á ferðinni en ef hún hverfur ekki við þessa meðferð skaltu láta lækni skoða hana.

Gangi þér vel.