Ráð við innföllnum geirvörtum

Spurning:

Ég er með innfallnar geirvörtur, hvað get ég gert?

Svar:

Innfallnar geirvörtur eru alls ekki óalgengar. Margar stelpur eru með geirvörturnar dálítið inn á við meðan brjóstin eru að vaxa en svo ýtast þær smám saman út þegar brjóstin þroskast betur. Eins breytast þær á meðgöngu – mýkjast og koma meira fram. Það sem er slæmt við innfallnar geirvörtur er að erfitt getur verið að hafa barn á brjósti. Reynt hefur verið með ýmsum ráðum að ná út innföllnum geirvörtum en með misjöfnum árangri. Það sem einna best hefur verið látið af er geirvörtumótari sem líkist fingurbjörg sem sett er yfir geirvörtuna og síðan sogið loftið úr þannig að geirvartan togast út í fingurbjörgina. Þetta er hægt að fá víða í apótekum – leitaðu bara í brjóstagjafarhillunum þeirra. Í mjög slæmum tilfellum getur lýtalæknir gert aðgerð til að ná út geirvörtunum en það hefur oft í för með sér minnkaða tilfinningu í þeim sem einnig er hindrandi í brjóstagjöfinni.
Ef þú ert nú þegar barnshafandi þá skaltu bíða með að gera nokkuð við geirvörturnar þar til þú ert komin yfir 36 vikna meðgöngu því öll örvun geirvartanna getur komið af stað samdráttum í leginu. Ræddu þetta þó við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni. Eins skaltu bíða með meðferð geirvartanna ef þú ert ekki búin að taka út fullan brjóstaþroska – það er um ca. 20 ára aldur.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir