Pungæðahnútar

Ágæti viðtakandi.

Ég vona að ég geti leitað til ykkar fyrst og fengið svör, en ég hef verið að lesa mér til  á netinu varðandi „Pungæðahnúta“ eða æðahnútar í pung/kólfsæðahnútar og ætlaði að ath. hvort þið gætuð aðstoðað mig.

Ég fann þessa grein á netinu – http://www.internet.is/rafkvervals/page0/page5/page37/page37.html og er nokkuð öruggur um að ég sé með einhvers konar æðahnút vinstra meginn, sem leiðir stundum í smá verk og óþægindi, en ekkert sem er að hrjá mig að neinu leyti. Hann er einmitt minni eða hverfur nánast þegar ég ligg svo þetta gæti verið það sem er að hrjá mig.

Hvað er til ráða, nú er ég aðeins 21. árs og ekki beint á leið í barneignir á næstunni svo, hefur þetta þau áhrif að ég gæti orðið ófrjór? Ef ég færi í aðgerð, yrði ég þá ófrjór? Er til önnur leið en aðgerð? Eru þessir hnútar hættulegir, smita frá sér sem gæti leitt til krabbameins í eistum? eða er mér öruggt að lifa með þetta á meðan þetta veldur mér ekki óþægindum? Þetta hefur verið í þó nokkurn tíma, en ég hef ekkert fundið fyrir neinu þannig séð.

Vonandi getið þið svarað mér, ég er ekki alveg tilbúinn að fara strax til læknis og langar að sjá hvort ég fái eitthverjar góðar fréttir áður en ég tek næsta skref.

Bestu kveðjur um jákvæð viðbrögð,

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina

Eins og fram kemur í greininni sem þú vísar til að ef um þetta vandamál er að ræða þá er meðferðin venjulega engin. Aðgerð er gerð ef þetta er stórt og tilgangurinn er einmitt að koma í veg fyrir ófrjósemi.

Hins vegar mæli ég með því að þú farir til heimilislæknis og fáir úr því skorið fyrir víst hvað sé á ferðinni og hvort þetta telst stór æðahnútur og hvort þú þufir að hafa áhyggjur eða ekki.

Gangi þér vel