pirringur í maga

hæhæ, undanfarið hef ég verið mjög pirruð í maganum og stundum átt erfitt með hægðir. Ég hef tekið allar mjólkurvörur út núna í nokkrar vikur og líður mun betur, ég hef líka verið að passa uppá vatnsdrykkju og drekk 2-3 750ml brúsa af vatni á dag en ég er ennþá með þennann pirring í maganum. Það heyrist mikið gaul úr honum en mér er ekkert illt, þetta er bara pirringur. Getið þið kannski leiðbeint mér?

Fyrir fram þakkir.

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Óþægindi í maga eða kviðarholi er mjög algengt vandamál. Þar sem þú nefnir erfiðleika með hægðirnar þá getur hægðatregða valdið talsverðri vanlíðan. Það er mikilvægt að borða trefjaríka fæðu eins og gróft korn, ávexti og grænmeti og drekka vel af vatni eins og þú ert að gera og um að gera að prófa sig áfram með hvað þú ert að borða og sjá hvort einhver breyting verður á. Ýmsir upplifa óþol eða jafnvel fæðuofnæmi sem getur verið vegna mjólkur, glútens, eggja og ýmissa annarra þátta. 

Hvað gaulið varðar þá er ekki hægt að gefa ákveðið svar hvað varðar orsakir. Það getur stafað frá maga og /eða smáþörmum og jafnvel ristli og eru ýmsar orsakir mögulegar.

Gangi þér vel