Pirringur

Hæ ég fæ svo oft pirring þegar einhver smjattar, hóstar mikið og margt fleira og þegar það gerist þá langar mig bara að öskra og mér líður eins og þetta sé ekki eðlilegt en ég veit ekki . Vonandi geti þið hjálpað mér

Sæl/l,

Flest eigum við daga þar sem við erum pirruð eða illa fyrirkölluð.  Sé sú líðan orðin viðvarandi og hamlandi í daglegu lífi er ástæða til þess að skoða málið nánar.  Lýsing þin á líðan þinni og pirring eru einkenni sem geta átt við kvíða eða andlega vanlíðan.

Við getum lítið haft áhrif á hvort annað fólk smjattar eða hóstar, eða almennt hvernig það hagar sér.   Það eina sem við getum gert er að breyta okkar eigin hugsunum og hvernig við tökumst á við vanlíðan og pirring.  Það er til dæmis hægt að gera með hugrænni athyglismeðferð.  Ef þessi pirringur fer að há þér mikið í daglegu lífi ættir þú að skoða hvort það séu aðrir þættir í þínu lífi sem valda þér álagi og geta stuðlað að vanlíðan sem brýst fram með svona pirringi.  Ef þetta hjálpar ekki myndi ég ráðleggja þér að leita til fagaðila, sálfræðings, geðlæknis eða heimilislæknisins þíns þar sem hægt er að skoða málið nánar og ráðleggja þér betur með hvaða úrræði myndu henta þér best.

Sigríður Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur