Pillan og milliblæðingar

Komið sæl
Ég veit ekki alveg hvert ég á að leita eins og er. Hef verið á pillunni í nokkur ár núna. (Hætti reyndar tímabundið eða í ca þrjá mánuði á síðasta ári vegna vandræða með sveppasýkingu. Á þeim tíma kusum við að nota heldur smokkinn svo að sýkingin myndi ekki berast á milli.)
Allavegana þá hefur þetta gengið sinn vana gang hjá mér og ég alltaf tekið viku pásu á pillunni og á þeim tíma byrjað á túr. Hef einu sinni á þessu ári verið of sein að byrja á túr en það munaði ekki miklu sennilega þremur dögum.
Ég hef síðan í lok síðasta árs alltaf verið á túr í kring um mánaðarmót. Eftir að hafa tekið pilluna í nokkra daga kannski viku í júní s.l. fór ég á milliblæðingar, gleymdi ca tveimur dögum fyrr að taka eina pillu (veit ekki hvort að það hafi áhrif). Milliblæðingarnar voru brún útferð í 4-5 daga man það ekki alveg og svo kom alveg rautt blóð í 1-2 daga strax eftir það en allan tímann hélt ég áfram að taka pilluna eðlilega.
Ég tók síðustu pilluna mína á þriðjudaginn þar síðasta eða fyrir níu dögum síðan en er ekki ennþá byrjuð á túr.
Tók óléttupróf í morgun sem kom út neikvætt.

Vitið þið hvað er eða gæti verið í gangi hjá mér og hvert ég ætti að leita? Þá til kvennsjúkdómalæknis eða heimilislæknis sem er töluvert ódýrara.

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Ef pillan gleymist þá byrja blæðingar en oftast þarf hún að gleymast í meira en sólarhring. Það er samt persónubundið og fer eftir pillutegund hversu lítið þarf til að blæðingar byrji. Yfirleitt eru þá blæðingar minni og sérstaklega ef þú hefur nýlega verið á blæðingum. Líklegasta skýringin á þessari óreglu er pillan sem gleymdist en óreglulegar blæðingar eða milliblæðingar geta líka verið merki um þungun, kynsjúkdóm eða að þú þurfir að skipta um pillutegund. Þú skalt halda áfram að taka pilluna samkvæmt leiðbeiningum en ef þessi óregla heldur áfram skaltu tala við lækninn þinn. Hvort þú ferð til heimilislæknis eða kvensjúkdómalæknis verður þú svolítið að velja sjálf eftir efnum og aðstæðum en það gæti verið gott að leita til þess læknis sem skrifaði upp á pilluna fyrir þig í upphafi.

Gangi þér vel