Óútskýranlegur hiti

Hæhæ.

Í fyrra (2014) skipti ég um getnaðarvörn, var á Microgyn en fór yfir í Mercilon (hef annars verið á Microgyn í mörg ár). Í kjölfarið byrjaði ég að fá hita í hvert skipti sem ég byrjaði á blæðingum. Tók fjögur spjöld af Mercilon og skipti svo aftur yfir í Microgyn eftir að læknirinn minn ráðlagði mér það (tek alltaf pásu á milli spjalda). Í byrjun desember 2014 byrjaði ég að fá stöðugan hita sem er ávallt yfir 37 gráður og hef verið með hann síðan. Hitinn fer aldrei niður fyrir 37 og fer annað slagið uppí 38. Hef tekið eftir því að mér líður verra seinni part dags, eins og hitinn sé hærri þá.

Fór strax til læknis og hann hefur sent mig í tvær blóðprufur og skoðað eitlana mína. Er núna meira en hálfnuð með Microgyn spjaldið (sem ég var upprunalega á og byrjaði aftur á) en er ennþá með hita og ekkert hefur komið í ljós hvað er að mér. Hann skoðaði m.a. CRP og sökkið en það var eðlilegt. Einnig hef ég látið stixa þvagið hjá mér og það er eðlilegt. Árið 2013 fór ég í hálskirtlatöku en nefkirtlanir voru skildir eftir. Einkennin hjá mér eru mikil þreyta og flensa síðan um jólin (er með slímugan hósta og kvef en læknirinn taldi flensuna ekki tengjast hitanum). Er ekki á neinum örðrum lyfjum. Það er vika síðan eg hitti lækninn og hann gat ekkert gert fyrir mig. Niðurstaðan var sú að klára núverandi pilluspjalið og hætta svo alveg og sjá hvað myndi gerast.

Er svo ráðalaus, er í 100% vaktavinnu (dag, kvöld og nótt) og hörmulegt að reyna að komast svona í gegnum daginn. Er góð einn daginn (með ca.37,6) en líður ömurlega þann næsta (37,8-38).

Vonandi getið þið gefið mér einhver betri svör, er alveg uppgefin á þessu.

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Það gæti verið að  þú sért með það sem kallast FUO (Fever of unknown origin), en það er ef hiti er reglubundið yfir 38 stig án skýringar sem útheimtir að það sé farið aftur vandlega yfir þá möguleika sem geta valdið slíku en þeir eru mjög margir.T.d sýking,bólgur eins og í gigt,æxli o.fl. Þar sem við höfum ekki neinar niðurstöður úr þeim rannsóknum sem þú hefur farið í mælum við eindregið með því að þú farir aftur til þinna lækna og látir endurmeta þig. Það getur þurft að gera fleiri rannsóknir og jafnvel endurtaka einhverjar þeirra. Mikilvægt er að átta sig á því að það er ekki eðlilegt að vera með toppóttann hita um marga mánaða skeið án skýringar.

Gangi þér vel