Orkuleysi

Ég er 49 ára gömul. Fyrir nokkrum mánuðum síðan greindist ég með blóðleysi, fékk blóðgjöf og járn í æð. Síðan hefur verið fylgst með þessu og fór ég í blóðprufu fyrir ekki löngu síðan sem kom vel út eftir því sem ég best veit. Samt sem áður er ég að fá svo mikla þreytu og orkuleysi að ég stend varla í fæturnar. Ég get verið alveg eins og ég á að mér eina stundina en kannski nokkrum mínútum seinna fer ég að finna fyrir þreytu, slappleika og eins og ég sé að fá hita og verða veik þó ég sé ekki veik. Þegar ég hef orku þá hef ég nýtt hana eins og td í garðvinnu og flr enda hef ég yfirleitt hingað til verið frekar aktiv en núna hafa þessar framkvæmdir venjulega í för með sér að orkan bókstaflega sogast úr mér þannig að ég er lengi að ná mér aftur. Síðan er alveg nýtt að ég er farinn að finna fyrir stirðleikum í fingrum þegar ég vakna á morgnanna sem lagast þegar líður á morguninn. Það hvarflar stundum að mér að ég sé að fá gigt en samt ekki því þá væri ég líklega með fleirri verki. Þá er bara spurning hvort þetta sé aldurinn og breytingarskeiðið því varla getur verið um einhvern vítamín skort að ræða fyrst blóðprufan kom vel út. Er það ekki alltaf rannsakað þegar blóðprufur eru teknar? Hvað haldið þið að geti valdið þessu?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Það getur ótalmargt orsakað þreytu og orkuleysi. Ástæðurnar geta bæði verið af líkamlegum og sálrænum toga. Algengustu einkenni járnskortsblóðleysis eru slappleiki, þreyta og svimi. Það er misjafnt hvað er athugað í hverri blóðprufu og best að hafa samband við þinn lækni og athuga hvað hafi verið rannsakað í síðustu blóðprufu.

Ég ráðlegg þér að hafa samband við þinn lækni sem þekkir þína sjúkrasögu og fá aðstoð við að finna út hvað veldur þessum einkennum.

Gangi þér vel,

Auður Hávarsdóttir, hjúkrunarfræðingur