Ónæmiskerfið

Ég er 19 ára stelpa og hef verið með rosalega mikið ofnæmi allt mitt líf. Fyrst byrjaði þetta á frjókornum. Læknarnir sögðu að þetta myndi eldast af mér. En síðan fór þetta út í að ég var með ofnæmi fyrir grasi. Með árunum hefur ofnæmið aukist, nú er ég með ofnæmi fyrir frjókornum, grasi, köttum, kremum, hnetum, grænmeti, ávöxtum og margt fleira. Ég fór í ofnæmispróf  á Akureyri og sagði lækninum frá því að ofnæmið sí stækkar. En læknarnir svara mér aldrei neitt almennilega og segja mér bara að halda áfram á Lóretín. Allt í einu fyrir svona 3 vikum síðan fékk ég rosalegt ofnæmi fyrir hvítlauk og lauk. Í hvert skipti sem ég borða eitthvað af þessu sem ég er með ofnæmi fyrir, líður mér verr og verr. Stundum fæ ég kláðabólur sumstaðar á líkamanum, stundum verður mér rosalega illt í maganum, stundum illt í hálsinum ( fer að anda djúpar/meira) eða mér verður illt í vörunum.
Getur þetta leitt út í bráðarofnæmi og af hverju fæ ég meira ofnæmi með aldrinum en ekki minna? Hvað get ég gert?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Það er gríðarlega mikilvægt að forðast allt það sem þú ert með ofnæmi fyrir og þess vegna mátt þú  alls ekki borða það sem þú ert með ofnæmi fyrir og þarft að forðast krem/ilmefnin sem þú ekki þolir. Ef þú heldur áfram að vera útsett fyrir þessum ofnæmisvöldum eykst hættan á að þú komir þér upp bráðaofnæmi.

Ég set með tengil á ágæta grein um ofnæmi á doktor.is sem þú getur lesið en annars hvet ég þig til þess að leita til sérfræðingis í ofnæmissjúkdómum og fá frekari aðstoð og mat.

Gangi þér vel