Ofvirkur skjaldkirtill: Ég er 44 ára og finn öll þessi einkenni

Góðan dag.
Ég er 44 ára og mig langar að spurjast fyrir varðandi ofvirkan skjaldkirtil.
Ef þessi hormón sem örva skjaldkirtilinn og skjaldkirtilshormónin mælast eðlileg, er þar með öruggt að ekki sé um ofvirkan skjaldkirtil að ræða?

Þannig er að í nokkurn tíma hef ég átt við öll þessi einkenni sem koma fram á síðunni ykkar:
• Kvíði, innri órói, eirðarleysi, einbeitingarerfiðleikar og viðkomandi er grátklökkur.
• Skjálfti á höndum.
• Hjartsláttur, hraður reglulegur púls eða hraður óreglulegur púls.
• Hitatilfinning, hitaóþol og svitaköst.
• Heit og rök húð.
• Þyngdartap, þrátt fyrir aukna matarlyst.
• Þreyta.
• Verkir og þreyta í vöðvum.
• Tíðar og linar hægðir.
• Truflanir á tíðablæðingum.

Ásamt sjóntruflunum, þ.e. eiga erfitt með að ná fókus oftast á morgnana og við áreynslu.

Þessi sjúkdómur er í ættinni og í desember leitaði ég læknis og þá var tekið blóðsýni sem hann sagði að væri eðlilegt nema að ég ætti að taka inn járn og B-vítamín ásamt að halda áfram á þunglyndislyfjum sem ég hef verið að taka.
Er þetta mögulega eitthvað annað?

Með kveðju og fyrirfram þökk fyrir svör.

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Ef þú ert búin að fara í blóðprufur og búin að láta mæla hjá þér skjaldkirtishormón sem koma eðlilega út má gera ráð fyrir að einkennin sem þú lýsir séu ekki tengd ofvikrum skjaldkirtli.  Þá er búið að útiloka það og vandamálið er af öðrum toga.

Einkennin sem hér eru talin upp eru mjög almenn eðlis og geta átt við mjög mörg önnur vandamál bæði andleg og líkamleg.  Einnig geta mörg einkenni hér að ofan átt við tíðarhvörf. Kannski er um að ræða fleiri en eina ástæðu einkenna hjá þér.

Til að fá lausn þinna mála þarft þú að leita til læknis, jafnvel fara í ítarlegri blóðprufur og frekari rannsóknir sem byggist á skoðun læknis og ítarlegri sjúkrasögu.

Gangi þér vel.