Ofnæmi

Daginn!
Dóttir mín (8ára) fór í ofnæmispróf og var mælt ofnæmi við grasi, birki, hestum, köttum og soja. Mældist mis sterkt. ( hefur verið með exem frá því hún var lítil) Hún hefur ekki oft fengið sterk viðbrögð en það virðist vera að aukast núna. Mest þegar hún er í grasi. Bólgnar um augun aðallega. Af og til fær hún útbrot á bakið og mjög mikinn kláða en ég næ ekki að tengja það við neitt. Við erum með kött sem hefur verið á heimilinu frá því áður en hún fæddist en hefur ekki fengið viðbrögð þó hún sé að klappa honum en það eru auðvitað kattarhár um alla íbúð eftir hann. Svo ég spyr….Getur kattarofnæmið verið að valda annaðhvort exemi eða útbrotunum á bakinu?
Eru meiri líkur á að hún fari að fá sterkari ofnæmisviðbrögð við köttum ef hún er mikið innan um ketti?
Myndirðu mæla með að losa okkur við kisann?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Ofnæmi og exem eru beintengd hvort við annað og þó að ofnæmi mælist vægt á einhverjum tímapunkti þá getur það breyst, sérstaklega ef viðkomandi er mikið í kringum það sem veldur ofnæminu, eins og í ykkar tilviki, gras og kettir.

Þið getið gert tilraun og tekið grunuðu ofnæmisvaldana í burtu í amk 2 vikur  og séð hvort einhver breyting verður á líðaninni.  Vissulega takið þið ekki grasið í burt en að halda henni frá grasi, loka vel gluggum og ekki þurrka þvottinn úti og senda kisu í pössun gætu verið leiðir til þess að komast að því hvort þarna sé eitthvað samhengi.

Gangi ykkur vel