Of þung en samt ekki feit.

Hæ, ég er 14 ára og er 1,75 m á hæð ca. og ég er alls ekkert feit en ég er stóbeinótt og með vöðva mikil læri og rass og svona. Ég er með miklar áhyggjur á því að ég sé allt of þung því ég er alveg ca. 89 kg! Hvað er hægt að gera og er þetta hættulegt?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Það er vandasamt verk að meta það útfrá skrifum hvort einhver sé hættulega þungur, því á bakvið tölu á vigt er svo margt annað heldur en það sem birtist á skjánum. Til dæmis eru vöðvar helmingi þyngri en fita, svo þeir sem eru með litla fitu en mikla vöðva utaná sér geta verið jafn þungir og einhver sem er með litla vöðva en mikla fitu.

Þegar maður er 14 ára er margt að gerast í kroppnum okkar, kynþroskinn að hellast yfir og miklar breytingar í gangi. Ef þú ert hraust og sjaldan veik, borðar hollan og góðan mat, stundar íþróttir og/eða hreyfir þig reglulega þá skaltu ekki hafa áhyggjur heldur einbeita þér að því að viðhalda því, því þessar góðu venjur koma til með að fara með þér í gegnum lífið.

Gott er líka að spjalla um þetta við einhvern t.d. foreldra og/eða eldri systkini eða jafnvel skólahjúkrunarfræðing. Ef þú ert líka að stunda einhverja íþrótt þá ætti þjálfarinn þinn að geta leiðbeint þér.

Gangi þér vel.

með kveðju,

Lára Kristín Jónsdóttir

Hjúkrunarfræðingur.