Óeðlileg þreyta?

Góðan dag,

Ég var nýleg greind með granuloma annulare og læknirinn minn reyndi Dapsone sem virkaði ekki og svo er ég búinn að fá fyrsta skammt af 3 af Kenalog.

Ég fæ hrikaleg þreytu köst upp úr þurru á daginn og er ekki alveg að skilja hvað er hvað með heilsufarið hjá mér. (fékk þau einnig fyrir sprautun)  Ég kann pottþétt ekki að spyrja réttu spurningarnar, og finnst ég ekki fá þau svör sem mig vantar. Læknirinn sem ég er hjá er vænsti maður og sjálfsagt mjög klár, en mér finnst mig vanta heildstæðari skoðun og hlustun frá einhverjum sem skoðar heildarmyndina. (eins og heimilislæknar voru á meðan þeir höfðu tíma fyrir sjúklinga) Hvert er best að leita (hverskonar læknis) Ég hef illa efni á sérfræðingum, en verð að finna lausn á mínum málum, ég er of ung til að vera svona þreytt og gömul. 🙂 Þigg allar ábendingar.

Bestu kveðjur

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Það er rétt hjá þér að þú ert of ung til þess að vera þreytt og búin með orkuna.

Hins vegar er ég ekki sammála því að þú kunnir ekki að spyrja því fyrirspurnin þín er skýr.

Þú ert með sjúkdóm sem eftir því sem ég best veit á ekki að valda þessum einkennum.

Sterar geta haft ýmisleg áhrif í líkamannn en þú varst farin að finna fyrir þessu fyrir lyfjagjöfina.

Hvernig er með vítamínbúskap og járn (blóðrauða)? Hefur það verið skoðað?

Mörgum hefur gagnast vel að taka inn D-vítamín. Nýjar rannsóknir eru að sýna að þó við Íslendingar höfum hingað til fengið nægilegt magn af því með fiski þá hefur neyslan dregist saman og nú eru að finnast einstaklingar með lág gildi af D-vítamíni. Ráðlegt er þó að láta  mæla D-vítamín gildi í blóði því það er mikilvægt að gæta þess að taka ekki of mikið af  því  þar sem það safnast fyrir í líkamanum.

 

 

Konur þurfa gjarnan að láta fylgjast með Járnbúskapnum sínum. Járnskortur getur einmitt haft þessi einkenni sem þú lýsir.

 

 

Heimilislæknir á að vera sá aðili sem sér heildarmyndina og hjálpar þér með þessi vandamál. Þú gætir bent honum kurteislega á að þér finnist hann ekki hlusta eða gefa þér nægan tíma…. eða pantað tíma hjá öðrum heimilislækni á sömu stöð.

 

Endilega ekki gefast upp og gangi þér vel