Njálgur smithætta

Sæl,

Ég var svo óheppin að greinast með njálg fyrir um 4 vikum síðan, síðan þá er ég búin að taka 3 töflur af lyfinu Vermox, ég tók semsagt síðustu bara fyrir 5 dögum síðan.
Ég er búin að þrífa allt hátt og lágt síðastliðinn mánuð og spritta allt sem hægt er að spritta, engin börn eru á heimilinu.. bara ég og maðurinn minn, en hann tók einnig töflur með mér.
Mér finnst eins og það sé farið að koma aftur hreyfing þarna niðri og langaði að spurja hvort möguleiki að ég væri að fá endursmit? En það væri mjög skrítið vegna þess að ég er nýbúin að taka þriðju töfluna.
Hvenær er semsagt fyrst hætta á að endursmit komi aftur?

Bestu kveðjur

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Mér finnst ólíklegt að þú sért að fá endursmit eftir alla þessa meðferð og hreingerningar. Yfirleitt er nóg að endurtaka meðferð eftir 14 daga en með því næst að rjúfa lífsferil eða fjölgunarmöguleika njálgsins. Lirfur í eggjum ættu að vera dauðar og kvendýrin ekki orðin fullþroska til að ná að fjölga sér. Það eina sem mér dettur í hug að gæti hafa gerst er að of stutt hafi liðið á milli meðferða hjá þér þannig enn hafi verið lirfur til staðar, en mér finnst það þó ólíklegt þar sem þú ert búin að taka 4 töflur alls ef ég skil þig rétt. Þú skalt aðeins sjá til og bíða og sjá hvort þetta líður hjá. Svona smit eru gjörn á að fara á sálina á fólki og auðvelt að finna kláða og einkenni sem benda til smits bara við tilhugsunina eina. Ef þú sérð eða færð staðfest að um endursmit sé að ræða þarftu að sjálfsögðu að meðhöndla þig aftur.

Gangi þér vel