Nikkel í matvælum

Spurning:

Sæl Ingibjörg.

Mig langar að vita í hvaða matvælum nikkel
fyrirfinnst?

Kær kveðja.

Svar:

Nikkel er aðallega að finna í fæðu úr jurtaríkinu, í mismiklu magni þó.
Fæða úr dýraríkinu inniheldur ekki nikkel nema í takmörkuðu magni. Nikkel
er oft til staðar í matvælum en oftast er spurningin hversu mikið magn er um
að ræða.

Mjólk og mjólkurvörur innihalda mjög lítið af nikkel og ástæðulaust að
óttast þær nema um sé að ræða samsettar vörur svo sem jógúrt með múslí.
Ostar hafa að sama skapi lágt nikkelinnihald en varast ber osta með til
dæmis hnetum í. Nikkelmagn í kornvörum er mjög mismunandi. Franskbrauð og
pasta innihalda tiltölulega lítið af nikkel, en grófari afurðir svo sem
hafragrjón, múslí, bókhveiti tiltölulega mikið. Ferskir ávextir og ferskt
grænmeti innihalda fremur lítið af nikkel en þurrkaðir ávextir mun meira.
Fræ, baunir og linsur innihalda yfirleitt mjög mikið af nikkel. Kjöt, fiskur
og alífuglar innihalda yfirleitt lítið af nikkel. Lítið nikkel er í hreinum
sykri svo og sykursætu sælgæti. Kakó og súkkulaði hafa mjög hátt
nikkelinnihald.

Eins og sjá má þá getur nikkel verið víða í matvælum. Erfitt er að útiloka
alla fæðu sem inniheldur nikkel, en fæðu sem er mjög nikkelrík ætti að
varast ef um ofnæmi er að ræða. Hafa ber í huga að nikkel í fæðu er ekki
orsök nikkelofnæmis svo það er ekki ástæða fyrir aðra en þá sem þegar eru
með ofnæmi að forðast nikkelríkar fæðutegundir.

Bestu kveðjur,
Ingibjörg Gunnarsdóttir, matvæla- og næringarfræðingur