Niðurgangur og uppköst

Góðan dag. Mig langar að forvitnast hvað geti valdið því að 10 mánaða barn búið að vera með niðurgang í tæpa viku og hvort ástæða sé til að fara með hann til læknis? Eins er hann að gubba annað slagið líka en hann hefur svosem alltaf gert það. Honum virðist líða vel þrátt fyrir allt og er hress.

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Það er lang líklegast að barnið hafi fengið umgangspest en svoleiðis pest hefur einmitt verið að ganga undanfarið. Það er ekki óalgengt að niðurgangur vari í þetta langan tíma, þar sem slímhúðirnar eru viðkvæmar og ná ekki að jafna sig almennilega. Þú skalt reyna að takmarka mjólkurmat eins og þú getur og helst sleppa því alveg að gefa barninu mjólkurvörur en passa samt að halda vökva vel að barninu. Vökvainntekt er nægjanleg ef barnið bleytir vel bleijurnar sínar og þvagið er ljóst. Einnig getur verið gott að gefa barninu eitthvað létt að borða og  þá líka eitthvað sem inniheldur salt t.d. súpu eða jafnvel snakk sem blotnar vel í munnvatninu og verður mjúkt. Vonandi gengur þetta yfir með því að huga að þessum atriðum í fæðunni en ef ekki þá þarft þú að ráðfæra þig við lækni

Gangi þér vel