Neyðarpillan og blæðingar

Ég stundaði kynlíf án getnaðarvarna fyrir sirka mánuði síðan, ég tók neyðarpilluna sólarhring seinna. Ég tók óléttupróf fyrir um viku síðan og var það neikvætt. En núna er ég komin 2 vikur framyfir venjulegar blæðingar, er þetta eðlilegt?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Neyðarpillan inniheldur mikið magn af hormónum og er því ekkert óeðlilegt að notkun hennar riðli tíðarhringnum. Því er ekki hægt að treysta því að næstu blæðingar verði á réttum tíma. Það ætti þó að komast regla á tíðarhringin tiltölulega fljótt.

Neyðarpillan veitir um 95% öryggi sé hún tekin innan 24 klst eftir samfarir, 85% vörn á öðrum sólarhring og 58% öryggi á þriðja sólarhring. Þar sem pillan getur aldrei veitt 100% vörn væri ráðlagt að bíða í um viku tíma og hafi blæðingar ekki byrjað þá væri ráð að taka nýtt þungunarpróf.

Gangi þér vel