Munnþurrkur

Góðan dag.

Hvað getur skýrt mikinn munnþurrk á nóttunni?

Ég hef nú í nokkurn tíma glímt við mikinn munnþurrk á nóttunni – svo mikinn að ég vakna orðið einu sinni til tvisvar á nóttu vegna þess að munnurinn er eiginlega límdur saman. Ég þarf þá að fara og skola og spíta úr mér mjög bragðvondu slím til að geta sofnað aftur.

Það er síðan „allt eðlilegt“ eftir að ég vakna og er búinn að hreinsa – þ.e. það ber ekkert á þessum munnþurrki yfir daginn.

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Munnþurrkur getur átt sér margar orsakir.  Til dæmis getur verið um aukaverkun lyfja að ræða eða ónóg vökvainntekt.  Ýmsir sjúkdómar geta orsakað munnþurrk til að mynda Sykursýki og Sjögren´s sjúkdómur.

Eins er það þekkt að með hækkandi aldri hægist á munnvatnsframleiðslu og getur þetta verið eitt merki um að elli kerling sé að banka uppá.

Ræddu þetta við lækninn þinn því munnvatnið hreinsar munninn stöðugt og ef það er ekki fyrir hendi í nægjanlegu magni eiga bakteríur auðvelt með að setjast á tennurnar og valda skemmdum og einnig er aukin hætta á sveppasýkingum í munni.

Gangi þér vel