Möguleg Blöðrubólga

Hæhæ, nú er alveg tiltölulega stutt síðan ég byrjaði að stunda samfarir reglulega og ég er farin að finna fyrir nokkrum einkennum blöðrubólgu, held ég. Ég fæ verki við þvaglát, endurtekin þvaglát, og það hefur komið örlítið blóð með þvaginu. Er eitthvað sem ég get gert til að losna við þetta? Eru það bara einhver lyf eða get ég reddað þessu einhvern veginn öðruvísi? Takk fyrir

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Þú skalt endilega hafa samband við lækni, skila þvagprufu og fá úr því skorið hvort að um þvagfærasýkingu sé að ræða vegna þess að ef svo er þá þarftu sýklalyfjameðferð. Meðferðin er hugsuð til þess að koma í veg fyrir mögulegan skaða á nýrum svo það er mjög mikilvægt að hundsa þetta ekki.

Ástæðan fyrir því að sumar konur fá frekar þvagfærasýkingu er sú að þvagrásin er stutt hjá konum og bakteríur eiga greiðari leið inn í líkamann. Þetta þýðir ekki að þær konur sem eiga við þetta vandamál að etja séu eitthvað óþrifnari en aðrar.

Til eru ýmis ráð til þess að fyrirbyggja að þú fáir endurtekin einkenni. Almennt er mikilvægt að fara strax á klósettið og pissa eftir samfarir, þannig hreinsar þú í burtu mögulegar bakteríur úr þvagrásinni. Gott er að þvo sér vel eftir samfarir en varast að nota sápu eða ertandi ilmefni. Það eru til sérstakir blautklútar fyrir konur en þú þarft að kynna þér vel hvort þeir séu raunverulega hentugri heldur en venjulegur þvottapoki og volgt vatn eða sturta.

Margir sem telja trönuberjasafa hafa verndandi áhrif með því að breyta sýrustigi þvagsins og þannig eiga bakteríurnar erfiðara með að vaxa og fjölga sér.  Í heilsubúðunum eru til ýmsar töflur og hylki sem eiga að gera gagn.

Gangi þér vel