Milliblæðingar

Halló. Ég er 18 ára og búin að vera á pillunni í nokkra mánuði. Ég fékk smá milliblæðingar á laugardaginn og það er núna búið að vera í þrjá daga. Þetta er svona dökkt en mjög lítið. Ég á ekki að byrja á túr fyrr en á sunnudaginn næsta. Ég er alltaf búin að taka pilluna en skipti fyrir stuttu frá mycrogyn yfir í einhverja aðra sem konan í apótekinu sagði að væri nákvæmlega sama pillan nema ódýrari. Ég var eitthvað að stressa mig á því hvort þetta gæti verið ólétta eða bara eitthvað sem er eðlilegt.
Það er vert að taka fram að ég ældi eftir að hafa tekið pilluna en það var meira en 2 tímum (sirka 3- 3og hálfum) eftir á og konan í apótekinu sagði að þá væri pillan komin út í blóðið og þá þyrfti ég ekki að taka neyðarpilluna. Þetta var hinsvegar í síðasta tíðarhring og ég er búin að fara á túr síðan. Ég er búin að vera í prófum og verið soldið stressuð, getur það haft áhrif á svona milliblæðingar?

Með fyrirfram þökkum

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Milliblæðingar geta verið alveg meinlausar en geta líka verið merki um þungun, kynsjúkdóm eða að þú þurfir að skipta um pillutegund. Þú skalt halda áfram að taka pilluna samkvæmt leiðbeiningum en ef þetta heldur áfram skaltu tala við lækninn þinn. Hvort þú ferð til heimilislæknis eða kvensjúkdómalæknis verður þú svolítið að velja sjálf eftir efnum og aðstæðum en það gæti verið gott að leita til þess læknis sem skrifaði upp á pilluna fyrir þig í upphafi.

Gangi þér vel