Meðganga: að hætta að reykja?

Spurning:

Ég er kominn 6 vikur á leið og mig vantar ráðleggingar varðandi reykingar. Ég er að reyna að hætta en það gengur ekki vel.

Á ég að minnka við mig, eða reyna að setja mér visst margar sígarettur ádag?

Svar:

Sæl.

Það er erfitt að hætta að reykja. Oft gefst best að hætta bara einn, tveir og þrír, því þá er minni hætta á að maður sé að freistast í eina og eina sígarettu umfram það sem maður ætlar. Hins vegar geta sumir alls ekki hætt svona snögglega og þá getur verið nauðsynlegt að skera niður um eina til tvær sígarettur á dag og gefa sér 2-3 mánuði til að hætta. Mörgun hefur fundist gott að fá sér appelsínu eða gulrætur þegar löngunin grípur þá og eins að fara út smástund í hreint loft. Forðastu líka staði og aðstæður sem kveikja á lönguninni, t.d. kaffibollann eftir matinn eða reykhornið í vinnunni. Í sumum tilvikum gengur vel með staðgengla eins og nikótíntyggjó eða nefsprey og þá ertu þó bara að fá nikótínið en ekki öll hin eiturefnin úr reyknum. Skoðaðu málið á www.reyklaus.is og sjáðu hvort þú finnur ekki einhver ráð sem gagnast þér. Mér finnst bara rosalega jákvætt að þú skulir vera að leggja þig svona fram og óska þér góðs gengis.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir