Meðganga

Ég er komin 9 vikur á leið af mínu 4 . Hins vegar fór ég í sónar á Þriðjud. þar sem það blæddi fyrir 2 vikum og síðan hefur verið að koma gamalt blóð. Þar sást öflugur hjartsláttur en það var ekki nema 14 mm eitthvað svoleiðis. Ég er með morgunógleði á háu stigi og öll einkenni. En í leginu fannst mikið blóð. Núna finn ég að það er að aukast blæðingarnar en eru enn brúnar og eingir óeðlilegir verkir. Ég er með fjölblöðrueggastokka. Eru einhverjar líkur á að fóstrið haldi í þrátt fyrir blæðingar og er eitthvað sem ég get gert til að hjálpa því?

 

Sæl

Takk fyrir fyrirspurnina og til hamingju með þungunina.

Blæðing á fyrri hluta meðgöngunnar getur verið af ýmsum toga, á fyrstu 6-7 vikunum getur blætt aðeins hjá a.m.k. 20% kvenna vegna bólfestu eggs og er sú blæðing ekki alvarleg. Ef hinsvegar verkir eru samfara blæðingu getur það bent til utanlegsfósturs, sem þarf að bregðast strax við. Blæðing eftir 12 vikna meðgöngu getur stafað af því að legháls er viðkvæmur. Blætt getur eftir samfarir þar sem slímhúðin er mjög viðkvæm á meðgöngu, ef fylgjan er lágsæt eða fyrirsæt.

Allt þetta getur verið orsök blæðinga á meðgöngu og eru misalvarlegar. Magn blæðingar skiptir máli, meira eða minna en matskeið. Hvort sé lykt af blæðingunni og hvernig litur er á blæðingunni, brúnt eða rautt. Einnig ef blæðingu fylgir verkir, samdrættir eða bakverkir. Í flestum tilvikum þar sem um blæðingar er að ræða á meðgöngu er mikilvægt að taka því rólega og ofreyna þig ekki.

En til þess að svara almennilega spurningum þínum þá ráðlegg ég þér að hafa samband við þína ljósmóðir og fá úr því skorið hvað sé á ferðinni hjá þér. Hún getur þá gert í samráði við þig og jafnvel lækni plön um framhaldið.

 

Gangi þér vel