Magaverkir og kláði

Sæl.
Fyrir rúmum mánuði síðan fór ég á þriggja daga sýklalyfja skammt. Með því fylgdu miklir magaverkir og niðurgangur. Í kjölfarið fór ég að finna fyrir miklum kláða í endaþarmi og gerði ég ráð fyrir að ég væri komin með gyllinæð, en það hefur aldrei fylgt neinn sársauki. Ég fékk því stíla hjá lækni og krem en ég er ennþá með kláða í dag. Einnig hef ég verið með vindverki og kviðverki ásamt því að vera með harðar hægðir og stundum fæ ég sár í endaþarminn sem blæðir aðeins úr.
Svo virðist sem ég fái vindverkina og kviðverkina þegar ég hef borðað mjólkurvörur og hef ég þvi verið að taka þær út og prófað mig áfram.
Er möguleiki að ég hafi þróað með mér mjólkursykuróþol eftir sýklalyfjaskammtinn sem gerir það að verkum að ég er alltaf með harðar hægðir og nái ekki að losa mig við „gyllinæðina“?

Kv. Ungfrú langsótt

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Algeng aukaverkun sýklalyfja eru meltingartengd vandamál.  Sýklalyfin geta sett meltinguna úr jafnvægi.  Þau ráðast á gerlagróður meltingarfæranna bæði á óæskilegar bakteríur og æskilegar örverur.  Ekki er óalegngt að fólk lendi í langvarandi erfiðleikum með meltingarfærin eftir inntöku sýklalyfja því er mikilvægt að taka meltingarlyf með s.s acidophilus og nota það í nokkurn tíma eftir að sýklalyfjakúr lýkur.  Fæst án lyfseðils í öllum apotekum. 

Mjólkursykuróþol tengist ekki sýklalyfjanotkunni en einkenni þess eru frekar niðurgangur, kviðverkir, uppþemba og vindgangur.

Líklega ert þú með gyllinæð af völdum hægðatregðu.  Kláði og blæðing geta fylgt gyllinæð.  Helsti orsakavaldur gyllinæðar er vegna rembings við hægðalosun og fylgir því oft harðlífi.   Gott er að auka trefjaneyslu samhliða því að drekka mikið af vökva og passa upp á reglulega hreyfingu. 

Ég bendi þér á að lesa greinar hér á doktor.is um gyllinæð og um hægðatregðu. Einnig gætir þú ráðfært þig við lyfjafræðing í apoteki varðandi meltinguna eða leitað til meltingarsérfræðings ef vandamálið verður viðvarandi.