Má nota Zovir á 14 mánaða barn?

Spurning:

Halló!

Ég er með fyrirspurn varðandi Zovir. Ég á dóttur sem er 14 mánaða og er hún, held ég, með tvær frunsur, eina á efri vörinni og eina í munnvikinu. Ég fæ mjög oft frunsu og hef líklega smitað hana einhvern tímann. Spurningin er hvað má ég bera á hana? Má ég kannski nota Zovir? Að vísu virkar það ekkert á mig en kannski á hana?

Með fyrirframþökk.

Svar:

Það er í lagi að bera Zovir krem á varir dóttur þinnar en eins og með sjálfa þig þá er ekki öruggt að góður árangur fáist. Stundum verkar Zovir vel á frunsur og stundum ekki. Þú verður að passa að lyfið berist ekki í augu hennar. Annað sem má að skaðlausu prófa er t.d. að bera þorskalýsi eða tannkrem á frunsurnar. Sumum finnst það virka vel. Bera skal á þær oft á dag (5 sinnum). Ef koma fram ofnæmisviðbrögð við notkun þessara efna skal hætta notkun strax.

Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur.