Má ég stunda handbolta á meðgöngu?

Spurning:

Ég er ólétt og komin um það bil 8 vikur á leið. 2 síðustu skiptin sem ég hef veið á handboltaæfingu hefur komið smá blóð. Getur þetta verið of mikil áreynsla fyrir líkamann? Ég á eitt barn fyrir og æfði líka þegar ég gekk með það en þá kom aldrei neitt blóð. Á ég að draga mig í hlé og æfa eitthvað annað sem reynir minna á líkamann?

Kveðja.

Svar:

Komdu sæl.

Ef blæðir á meðgöngu er það stundum merki um að taka þurfi það rólegar a.m.k. í einhvern tíma. Oftast er svona blæðing frá leghálsinum og kemur vegna þess hversu gljúpur hann verður á meðgöngunni. Í færri tilvikum er blæðingin frá fylgjunni og það er fremur ólíklegt ef engir verkir hafa fylgt. En ég myndi nú ráðleggja þér að hvíla þig á handboltanum í eina til tvær vikur og sjá svo til. Það er talað um að hófleg líkamsþjálfun sé mjögaf hinu góða á meðgöngu en það er spurning hvort handbolti telst í hóflega kantinum.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir