Lyf, Skegg, Sjón, Rödd

Er með 4 spurningar sem væri frábært að fá svar við um líkamann minn.

Lyf: Ég er 19 ára drengur og mér finnst ég vera frekar lágvaxin (170 CM) eru til einhverskonar lyf eða einhvað sem hægt er að gera til að láta mann verða stærri ?.

Skegg: Ég er líka með frekar mikinn skegg vöxt og fæ nokkur hár sem tengjast ekkert skegginu sem ég vill safna eru bara einhverstaðar á andlitinu hvert get ég leitað til að fara í svona hár eyðingar tíma ?.

Sjón: Ég nota gleraugu og er fjarsýnn en er ekki með mikinn styrk svona 1.5+ báðum augum hvernig virkar þessi aðgerð sem lætur linsu inn í augun dugar hún endalaust eða þarf að skipta um linsu á einhverjum tíma ?.

Rödd: Er einhvað sem ég get gert til að vera með dýpri rödd t.d fara á einhverskonar hormónalyf?.

 

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina

Það er ýmislegt sem hefur áhrif á líkamshæð en erfðir spila þar stórt hlutverk. Ef karlmenn í þinni fjölskyldu eru lágvaxnir eru meiri líkur á því að þú verðir líka fremur lágvaxinn. Það er samt ekki víst að þú sért hættur að stækka því strákar geta verið að bæta við sig hæð fram yfir 20 ára aldurinn.

Skeggvöxtur er líka mjög einstaklingsbundinn en flestir karlmenn þurfa að eyða talsverðum tíma í að raka sig eða snyrta skeggið sitt. Ef þetta er verulegt vandamál getur þú leitað ráða hjá snyrtistofum en sumar þeirra bjóða upp á lasermeðferð sem eyðir varanlega óæskilegum hárvexti

Ég held að þú sért að meina laser aðgerð á augum og hér getur þú lesið þér til um þannig aðgerð. Þú byrjar á því að fara í forskoðun hjá augnlækni þar sem metið er hvort þú uppfyllir öll skilyrði fyrir aðgerð. Þar gefst þér tækifæri til að fá meiri upplýsingar um aðgerðina og getur þá tekið ákvörðun um hvort að þetta sé eitthvað sem hentar þér núna.

Á kynþroskaárunum breytist röddin og dýpkar fyrir áhrif kynhormóna. Röddin dýpkar vegna þess að barkakýlið stækkar og raddböndin lengjast og þykkna. Hversu mikð röddin dýpkar getur verið háð ýmsu en gæti mögulega tengst einhverju í hormónabúskapnum hjá þér. Til að vita það með vissu þarftu að fara til læknis og fara í blóðprufu. Þú getur pantað þér tíma hjá heimilislækni eða innkirtlasérfræðingi. Um leið getur þú rætt við lækninn um áhyggjur þínar af líkamhæðinni.

Spurningar þínar benda til þess að þú sért mikið að velta útlitinu fyrir þér. Það er gott að spá í útlitið og hugsa um hvað maður getur gert til að verða sáttari við sjálfan sig en um leið þarftu að passa þig að verða ekki of upptekin af þessum pælingum. Útlit okkar er að miklu leyti háð erfðum og þar er margt sem við getum einfaldlega ekki breytt. Þá er betra að reyna að taka það í sátt, því það getur fylgt því mikil vanlíðan að vera stöðugt ósáttur við sjálfan sig.

Gangi þér vel