Losec mups, b-12 vítamín og meðganga

Spurning:

Mig langar að vita hvort Losec mups 20mg og b-12 vítamin í sprautuformi

séu hættuleg efni á meðgöngu?

Svar:

Það á við um flest lyf að hvorki eiga þungaðar konur né konur með börn á brjósti að nota þau nema að brýna nauðsyn beri til. Er þá gengið út frá því að gagn móðurinnar af lyfinu sé meira en sú áhætta sem er tekin varðandi verkanir á fóstur eða barn á brjósti. Þar sem lyf eru aldrei prófuð á þunguðum konum eða á konum með börn á brjósti, þegar verið er að þróa og markaðssetja lyf, er venjulega ekki vitað mikið um áhrif á fóstur eða brjóstmylkinga.

Þetta á við um Losec mups, það er lítið vitað um áhrifin og því ekki ráðlegt að nota lyfið.

B-12 vítamín er í lagi á meðgöngu og í raun nauðsynlegt því það er mikilvægt fyrir frumuvöxt og frumuskiptingu. Ráðlagður dagskammtur fyrir þungaðar konur er 4 míkrógrömm á dag.

Með kveðju,

Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur.