Linar og eðlilegar hægðir til skiptis

Góðan dag…
Undanfarna mánuði hef ég haft linar og eðlilegar hægðir til skiptis – nokkra daga eðlilegar hægðir, svo linar/vatnskenndar í einn til tvo daga, og þá svíður mig í endaþarmsopið, eins og hægðirnar séu svo „sterkar“ að þær brenni húðina… Það er ekkert blóð með hægðunum og ég fæ enga kviðverki….

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Það er ýmislegt sem kemur til greina sem skýring á þessu vandamáli.

Mögulega er um einhverskonar fæðuóþól að ræða. Þú skalt endilega skoða hvort þú finnur einhverja tengingu milli þess sem þú ert að borða og þessara einkenna.

Eins er til í dæminu að um svokallað „framhjáhlaup“ sé að ræða. Þó svo að hægðirnar séu að þínu mati eðlilegar inn á milli þá getur verið fastur hægðaköggull í ristlinum sem stíflar en ekki alveg og þannig komist eingöngu vatnsþunnar hægðir framhjá stundum en stundum betur formaðar. Ef þú átt tilhneigingu til þess að vera með hægðatregðu þá gæti þetta verið skýringin.

Ef hvorgu skýringin á við um þig og vandamálið heldur áfram skaltu leita læknis.

Gangi þér vel