Líkur á getnaði og blöðrur á eggjastokkum

Spurning:

Komdu blessaður.

Ég er 27 ára gift kona og hef reynt í 16 mánuði að verða barnshafandi en ekkert gengur. Ég var á pillunni í 9 ár og hætti á henni í september 1998. Blæðingar hafa alltaf verið eðlilegar en þó hef ég kviðverki og útferð þegar egglos á sér stað. Ég var að berjast við blöðrur á eggjastokkum og hef ekki fundið fyrir þeim síðan í haust. Læknirinn sem ég fór til segir mér að ég eigi bara að bíða, þetta komi en ég myndi þiggja betri upplýsingar um hvernig ég eigi að reyna að auka líkur á getnaði. Ég er að taka fólínsýru og e vítamín, en ég óttast að holdafarið sé ekki upp á marga fiska, því yfir jólin missti ég 2-4 kíló, og er þar að leiðandi frekar létt núna eða u.þ.b. 50 kíló og er 165 cm á hæð. Hefur þetta einhver áhrif?

Með von um góð viðbrögð.

Svar:

Sæl og blessuð.

Í fyrsta lagi veldur almenn vanlíðan og lélegt næringarástand minnkaðri frjósemi. Nú hljómar það ekki svo hjá þér og að auki ertu að taka vítamín, bætiefni sem stuðla að heilbrigði væntanlegs fósturs svo það er vel. Það eru ansi margar upplýsingar sem á vantar svo hægt sé að gefa þér tæmandi ráð og sjaldnast hægt nema að undangenginni skoðun. Því verður þú að treysta á það sem læknirinn þinn ráðleggur og ekki gott að hafa nema einn ráðgjafa í gangi í einu. Mestu líkur á getnaði er u.þ.b. 14 dögum fyrir blæðingar sem lætur nærri hjá flestum konum að vera u.þ.b. 14 dagur frá upphafi tíða +/- 3-4 dagar. Þetta eru dagar að vanda sig á. Sagan um blöðrumyndun gæti gefið tilefni til að ætla að þú gætir þurft á örvun að halda sem ég reikna með að læknirinn þinn sé að hugsa um eða ætli að senda þig í slíka meðferð.

Bestu kveðjur og gangi þér vel,
Arnar Haukson dr. med.