Liðverkir

Ég hef verið að þjást af miklum liðverkjum síðastliðnar 8 vikur. Ég er með barn á brjósti og einhvers staðar las ég að liðverkir gætu fylgt brjóstagjöf. Verkirnir fóru að koma þegar barnið mitt var búið að vera á brjôsti í 4 vikur. Þetta byrjaði á stirðleika á morgnanna í öllum liðum og þá sérstaklega fingrum, hnjám og ökklum sem lagaðist síðan mjög fljótt eftir að ég fór á fætur. En síðan fór að aukast á verkina í hnjánum og í dag get ég ekki sofið á hliðinni því þà fæ ég stingandi verk í hnén, ég á mjög erfitt með að beygja hnén og þá sérstaklega þegar ég stend upp, mér finnst þetta mjög heftandi þar sem ég er með lítið barn sem ég þarf mikið að halda á. Er eitthvað sem ég get gert til þess að laga þetta? Ég fer út að labba nokkrum sinnum í viku og finn èg ekki til í hnjánum þegar ég hreyfi mig en ég verð samt sem áður mjög þreytt í líkamanum.

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Sumar konur virðast finna fyrir liðverkjum og tengja það brjóstagjöf en þó er líklegri skýring sú truflun sem verður á hormónunum bæði á meðgöngu og eftir fæðingu barns. Vitað er að á meðgöngunni slaknar á liðböndum vegna þessarra hormónabreytinga (og tengist það til dæmis grindargliðnun). Venjulega gengur þetta til baka á svipuðum tíma og brjóstgjöf hættir, stundum fyrr en stundum finna konur einhver einkenni lengur. Ég hvet þig til þess að ræða þetta við ungbarnaeftirlitið og/eða heimilislækni og taktu endilega inn lýsi og omega til þess að hjálpa liðunum að jafna sig.

Gangi þér vel