Lengri blæðingar í pillupásu

Sæl.
Ég er 17 ára gömul og byrjaði á pillunni Microgyn í vor. Ég tók 3 spjöld samfellt,í miðju seinasta spjaldi fékk ég milliblæðingar,þó ekki miklar né langar. Svo ákvað ég að taka pásu eftir það spjald og er nú búin að vera á blæðingum í rúmlega viku og þær eru mun meiri en var þegar ég var ekki á pillunni og þá var ég oftast bara í 3 daga.
Ég var að velta fyrir mér hvort þetta sé vegna þess að ég tók pilluna samfellt þrisvar eða bara að vera á pillunni fylgir því að vera á lengri/meiri blæðingum.

Vonandi fæ ég svar 🙂

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Fyrst af öllum mundi ég ráðleggja þér að taka pilluna samkvæmt leiðbeiningum og ekki sleppa því að taka 7 daga hlé á inntöku og allra síst þegar þú ert að byrja að taka pilluna, þar sem líkami þinn hefur ekki vanist þessari hormónaviðbót. Það er óhætt að nota pilluna til að fresta blæðingum við sérstök tækifæri en það er ekki ráðlegt að fresta þeim meira en 21 dag þar sem það eykur hættu á blæðingatruflunum. Líklegasta skýringin á bæði milliblæðingunum og miklum og löngum blæðingum í pillupásunni eru sveiflur í hormónum hjá þér þar sem þú tókst ekki pilluhlé.

Ég ráðlegg þér að taka pilluna samkvæmt leiðbeiningum næstu tíðarhringi. Ef þú heldur áfram að fá milliblæðingar eða ef þér finnst eitthvað vera óeðlilegt við mánaðarlegu blæðingarnar, skaltu hafa samband við lækninn sem skrifaði upp á pilluna fyrir þig, því það gæti bent til þess að þessi tegund af pillu henti þér ekki.

Gangi þér vel