leghálsstrok og vægar frumubreytingar

Fékk að vita um vægar frumubreytingar eftir krabbameinsskoðun. Á víst að bíða í 6 mánuði og koma aftur í skoðun. Er eitthvað sem hægt er að gera til að bæta líkur á að skoðunin komi vel út?

Sæl og þakka þér fyrir fyrirspurnina.

Orsök leghálskrabbameins má rekja til röskunar á jafnvægi í nýmyndun og eyðingu fruma í slímhúð leghálsins. Ekki er vitað með vissu hvað veldur þessari röskun. Þó er vitað að um 90% kvenna sem fá sjúkdóminn hafa stundað kynlíf. Hætta á myndun leghálskrabbameins virðist einnig aukast eftir því sem konan er yngri þegar hún byrjar að stunda kynlíf og eykst áhættan með fjölda félaga.

Í mörgum tilfellum er um að ræða veirusmit, Human Papilloma virus eða HPV, þar sem veiran berst á milli við samfarir. Fleiri þættir virðast geta haft áhrif, svo sem aðrar sýkingar í kynfærum og talið er að reykingar geti einnig aukið áhættuna.

Þar sem sterk tengsl eru milli leghálskrabbameins og HPV-veirunnar sem smitast við samfarir, er mikilvægt að benda á að draga má úr hættu á slíku smiti með því að stunda öruggt kynlíf og nota smokk. Einnig er alltaf gott að árétta að góður og nægur svefn, hollt mataræði og hreyfing ásamt inntöku á D-vítamíni yfir vetrartímann eykur getu líkamanns til að takast á við hinar ýmsu áskoranir.

Gangi þér vel,

Sigríður Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingu