Langvinn fráhvarseinkenni benzó-lyfja

Eru langvinn fráhvarseinkenni benzó-lyfja algeng á Íslandi? Einkenni sem (eftir áralanga notkun lyfjanna) valda miklum andlegum og líkamlegum óþægindum svo mánuðum skiptir þrátt fyrir mjög hæga niðurtröppun. Er e-ð hægt að gera til að lina þrautir þeirra sem ganga í gegnum slík fráhvörf – ekki síst vöðvaþrautir? Eða verða menn bara að láta sig „hafaða?“

 

Takk fyrir fyrirspurnina

Áður en ákvörðun er tekin um að hætta notkun benzódíazepín-lyfja með því að draga úr henni í áföngum skiptir öllu máli að einstaklingurinn vilji það sjálfur, viti nákvæmlega hvernig það er ráðgert og geri sér grein fyrir þeim einkennum sem gætu komið fram.

Misnoti sjúklingurinn áfengi getur verið mjög erfitt að hætta notkun benzódíazepínlyfja á þennan hátt og þá er skynsamlegt að ráðast gegn áfengisneyslunni fyrst. Eigi að hætta meðferð eftir 4–6 vikur frá því hún hófst er unnt að hætta töku benzódíazepín-lyfja á fáeinum dögum. Hafi meðferðin varað lengur þarf lengri tíma til að hætta og nauðsynlegt  að draga úr meðferðinni í áföngum.

Það er ómögulegt að segja nákvæmlega til um hve lengi fráhvarfseinkenni munu vara. Það er mjög einstaklingsbundið og margir þættir sem geta haft áhrif þar á. Til að minnka líkur á fráhvarfseinkennum ætti að minnka skammtinn hægt og stefna að sem jafnastri lækkun á þéttni benzódíazepín-lyfsins í blóði. Of hröð minnkun skammtsins getur valdið óþægilegum fráhvarfseinkennum. Mjög einstaklingsbundið er hversu hægt skal fara en skynsamlegt getur verið að teygja þennan tíma í nokkra mánuði. Sú þumalfingursregla hefur verið notuð að tíminn sem stigminnkun lyfjaskammtsins tekur, talinn í mánuðum, eigi að vera svipaður og notkunartíminn í árum. Mestu máli skiptir að dregið sé úr meðferðinni jafnt og þétt og sífellt sé stefnt fram á við. Ef miklar aukaverkanir koma fram skal halda skammti óbreyttum í nokkrar vikur en forðast skal að auka skammtinn aftur. Komi fram svefntruflanir skal forðast hvers kyns benzódíazepín-lyf eða cýklópyrrólon-lyf sem svefnlyf.

Fráhvarfseinkenni geta komið í bylgjum, mismunandi einkenni sem koma og fara. Eftir því sem tíminn líður ættu einkennin að dvína. Með því að hætta töku lyfjanna hægt hafa margir sem hafa notað lyfin í langan tíma orðið einkennalausir að mestu með tímanum.

Minnihluti þeirra sem hætta töku benzolyfja eftir langan tíma á lyfinu virðast fá langtímaeinkenni sem geta varað í mánuði eða jafnvel ár. Þau einkenni sem virðast líklegust til að vara lengi eru kvíði, svefnleysi, þunglyndi, vöðvaspenna, krampar, slappleiki og mismunandi einkenni á skynfærum og/eða hreyfigetu. Einnig meltingartruflanir og truflanir á minni og skynfærum. Önnur einkenni sem geta varað lengi eru náladofi, eða dofnir blettir á andliti, útlimum og fingrum. Þessu getur fylgt brennandi sársauki sem stundum virðist byrja djúpt í vöðvum eða beinum. Sumir hafa talað um innri skjálfta eða titring og einnig hefur verið lýst undarlegum skynjunum eins og vatn eða slím sem rennur yfir líkamann.

Flest bendir til þess að þessi einkenni minnki eða hverfi alveg með tímanum, þó að stundum geti það tekið langan tíma.

Þeir sem þjást af langtímaáhrifum geta gert ýmislegt til að bæta líðan sína, til dæmis: Stunda líkamsþjálfun, það bætir blóðflæði um líkamann og bætir starfsemi líkamans og heilans. Finna líkamsþjálfun sem hentar, byrja hægt og stunda hana reglulega. Líkamsþjálfun hjálpar einnig við þunglyndi, dregur úr þreytu og bætir almenna hreysti.

Þjálfaðu heilann, gerðu minnismiða, krossgátur og aðra hugarleikfimi. Breikkaðu út áhugasvið þitt. Við það að finna nýtt áhugamál þjálfar þú heilann, eykur hvata þinn og dregur athygli þína frá einkennum sem trufla þig.

Róaðu hugann, reyndu að draga úr áhyggjum því áhyggjur, hræðsla og kvíði geta aukið fráhvarfseinkenni. Mörg þessara einkenna geta verið tengd kvíðanum en ekki merki um skemmdir á heila- eða taugakerfi. Hræðsla við fráhvarfseinkenni getur aukið fráhvarfseinkenni.

Gangi þér vel

Upplýsingar fengnar frá Landlæknisembættinu

http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item2540/3701.pdf