Kyrrsetumaður þarf hreyfingu

Spurning:

Góðan daginn Ágústa

Hvað ráðleggur þú kyrrsetumanni sem langar að taka sig á og bæta fyrir syndir síðustu ára? Ég er um 10 kg. of þungur og hef lítið hreyft mig undanfarin ár. Vil ekki byrja of geyst en vil sjá árangur fljótt.

Svar:

Byrjaðu strax í dag að hreyfa þig 5-6 daga vikunnar. Hvort sem þú velur að fara á líkamsræktarstöð eða hreyfa þig úti er mikilvægt að hafa fjölbreytni í þjálfuninni. Stundaðu styrktarþjálfun a.m.k. 2x í viku og ýmiskonar þolþjálfun aðra daga. Byrjaðu rólega fyrstu dagana t.d. skokka rólega í 20 mínútur og auktu svo álagið smátt og smátt. Mjög gott er að fá tilsögn þegar farið er af stað í líkamsþjálfun eftir langt hlé og bjóða t.d. sumar líkamsræktarstöðvar upp á svo kallað „eftirlit" þar sem þú getur fengið þér kort og verið undir eftirliti þjálfara. Þá er fylgst vel með þér frá byrjun, þú ferð í ýmsar mælingar og getur þannig betur fylgst með árangrinum. Þannig geturðu verið viss um að fara ekki of geyst af stað.

kveðja, Ágústa Johnson