Kynfæraáblástur – Koma í veg fyrir

Sæl veriði.

Ég er karlmaður á þrítugsaldri og hef verið með þennan sjúkdóm í tæpa 8 mánuði. Eins og vitað er þá er þetta ólæknandi kynsjúkdómur og einkennin geta verið mismunandi fyrir hvern einstakling.

Þegar ég fór fyrst í húð og kyn þá var skrifað á mig 4 skammta af þessum töflum. Þeir voru ekki lengi að klárast og talaði ég við hjúkrunarfræðing á heilsugæslunni hjá mér og hún skammtaði mér aðra 4. Nú eru þeir búnir en það sem situr eftir var að það þegar hún sagði að þessir fjórir skammtar eiga að vera “ ársskammtur.“

8 Mánuðir og 8 skammtar komnir í hús. Það er sem sagt hægt að segja að ég sé að fá einkenni 1x á mánuði.

Þannig að spurningin mín er þannig.

Hvað get ég gert til þess að einkennin blossi ekki upp? Eða ekki eins oft upp?

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina

Eins og þú segir sjálfur er um ólæknandi sjúkdóm að ræða. Lyfjameðferðin er hugsuð til þess að draga úr einkennum og stytta tímann sem þú ert með blöðrur og sár. Ef þau eru ekki til ama þá þarftu ekki meðferð en til þess að lyfin virki þarf að hefja meðferð eins fljótt og auðið er. Um er að ræða vírus sem liggur í dvala og blossar upp en ekki er alveg vitað hvað veldur því að það gerist.  Stundum getur þurft ákveðnari meðferð sem er mögulega raunin í þínu tilviki og hvet ég þig því til þess að ræða við heimilislækninn þinn eða lækninn á húð og kyn um frekari meðferð þar sem núverandi meðferð virðist ekki gagnast nægilega vel.

Gangi þér vel