kvíði, hræðsla, sviti, heitt, kalt

sæll / sæl

Úff veit ekki hvar ég á að byrja ég er alinn upp við það að vera ekki að kvarta og væla, bíta á jaxlin og bölva í hljóði því karlmenn væla ekki, en undanfarnir mánuðir hafa verði hræðilegir. Við konan mín lentum í þeirri óskemmtilegu lífsreynslu að missa dóttur okkar og sama ár lenti ég í slysi sem gerði það að verkum að ég gat ekki stundað mína vinnu né aðra vinnu og við það hrundu tekjur heimilisins og húsið okkar hangir á bláþræði.

Mig grunar að ég sé ofvirkur með athyglisbrest, les og ritblindu. Mér gekk hræðilega í skóla og varð fyrir öllum þessum pakka einelti og þess háttar en með einhverjum hætti tókst mér samt að komast og ná mér í réttindi sem xx, ég get til að mynda aldrei setið lengi kjur þarf alltaf að vera á ferðinni og gera eitthvað.

Eftir áfölin fór ég að drekka ótæpilega og virtist sem vanlíðanin dofnaði við það og ef mér leið illa voru bara 3-4 bjórar búnir að laga helling, en undafarinn mánuð hef ég verið þannig að ég hrekk í kút og hleyp í felur ef það er dinglað, og er ekki heima ef síminn hringir og það er einhverjir aðrir en börnin og konan svara ég ekki og stíng símanum undir sæng og flýti mér frá honum einsog einhver myndi koma útúr honum og sjá mig. Ég svitna og svitna en á sama tíma get ég skolfið úr kulda, þegar ég skelf ekki úr kulda skjálfa hendurnar svo mikið að ég á í erfiðleikum með að skrifa þetta.  Ég á erfitt með svefn og fæ martraðir um alskyns rugl . Ég lenti í smávægilegu rifrildi við mann útaf bíl fyrir nokkru og þá fór allt í kerfi.

Ég legg ekki í það að fara til læknis því það þýðir að ég þarf að fara út og það þýðir að þá hitti ég fólk. en ég mundi eftir að einhvern tíma hafði ég séð þessa síðu og fór að lesa og ákvað að senda ykkur línu. Ef ég ætti að telja allt  upp væri það margra daga skrift. Hvað er til ráða fyrir uttan þessa ódýru búinn að reyna hana reyndar einusinni og slapp fyrir horn sem betur fer . Ef ég væri vél myndi ég dæma heddið ónyt.

kkv

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina

Þú átt geinilega í miklum vanda sem þú þarft aðstoð við og hana færðu ekki með því að sitja heima.  Ef við höldum áfram með líkinguna með vélina þá eru í henni gangtruflanir og hún hefur orðið fyrir hnjaski en hún er ekki ónýt, það er hægt að flikka upp á hana en þá þarf að leita til aðila sem það kunna. Þú nefnir konuna þína, getur þú rætt við hana og beðið hana um að hjálpa þér að leita aðstoðar?  Þér kanna að finnast það  ótrúlegt en þegar á reynir og menn opna á svona vanlíðan við sína nánustu þá eru þeir undantekningarlaust tilbúnir til þess að hjálpa og jafnvel búnir að vera að velta fyrir sér hvað þeir geti gert.

Ég hvet ykkur til þess að ræða við heilsugæslulækni og mögulega SÁÁ.

Ekki bíða, fáðu aðstoð

Gangi þér vel