Kvíði

Sæl,

Ef maður er með kvíða og er einangraður og hefur reynt að fá aðra til að gera einhvað skemmtilegt með sér, en þrátt fyrir jákvæðar undirtektir gerist ekkert, ekki vill maður ganga á eftir fólki svo að hvað er til ráða? Er þetta veruleikinn hjá fólki sem er eitt á miðjum aldri ? Ef svo er, er ekki hægt að hlakka til næstu ára fyrir marga. Hvað er til ráða?

Kveðja

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Einmanaleiki er erfiður viðureignar vegna þess að það er erfitt að manna sig upp í að mæta einn á viðburði eða annað.  Samfélagslega normið er svo ríkjandi í okkur að maður þurfi alltaf að mæta með einhverjum. Breytingin þarf ekki síður að eiga sér stað í manns eigin hugsanagangi og svo er bara að  leggja af stað og mæta þangað sem hugurinn girnist. Skráðu þig í einhver félagasamtök  eða á námskeið til dæmis eða taktu þátt í starfi Rauða krossins eða annað sem vekur áhuga þinn og vittu til þú verður komin í skemmtilegan félagsskap áður en þú veist af. Það þarf bara að þora.

Gangi þér vel