Kvíði

Hæ.
Ég er í svolitlum vandræðum með sjálfa mig. Hef ekki þjáðst af þunglyndi áður. Ekki svo ég viti en allt í einu er eins og einhver sársauki hafi sest að í mér og ég græt sífellt oftar og get ekki fundið ástæðuna fyrir því. Hef lesið mér aðeins til um þunglyndi og kvíða og þetta er örugglega ofhugsun sem drífur kvíðann áfram og íþyngir mér. Það er auðvelt að segja einhverjum að hugsa minna og slaka á en það er hægara sagt en gert. Samtímis hef ég verið að hugsa um sjálfsvíg. Ekki sem raunhæfan möguleika því ég er mjög hrædd við dauðann og tilhugsunina um að deyja heldur poppa upp myndir í höfuðið. Að láta mig detta fram af svölunum, hvernig það væri. Það tryggir manni alla vega frið í höfðinu. Svo er líka almennt tilgangsleysi og merkingarleysi sem flöktir til og frá. Mig langar að geta lifað léttara lífi en strögglið kemur líka af því að við vitum svo mikið um hvað lætur manni líða vel að það er eins og vellíðunin velti einungis á manni sjálfum. Þá líður mér eins og ég sé alger aumingi að geta ekki bara hætt að hugsa, farið út að hlaupa borðað hollt, stundað jóga og allt það. Líf mitt er ekki slæmt í eðli sínu í dag þrátt fyrir að ég hafi orðið fyrir áföllum eins og örugglega flestir, að einhverju marki. Andlegt ofbeldi í fyrra sambandi. Alkóhólismi í stórfjölskyldu eins og allir á Íslandi. Ég hef alveg farið til sálfræðinga og líka byrjað að vinna með meðvirkni. Samt er eins og í grunninn sé sársauki sem er ekki svo auðvelt að losna við. Einhver ráð? Ég er ekki á Íslandi svo ég er ekki hjá sálfræðingi en er ennþá að vinna með meðvirknina (sem virðist samt ekki vera almennilega viðurkennd sem sjúkdómur, alla vega hef ég ekki fundið neitt um það). Ef það skiptir máli þá er ég 31 árs og í samandi.
Kv. Ein ráðalaus

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Þú þarft klárlega á aðstoð að halda og ættir að ráðfæra þig við lækni og/eða sálfræðing til þess að aðstoðað þig við að ná betri líðan. Þessi farvegur er ekki rétta leiðin til aðstoða þig. Þú segist hafa farið til sálfræðinga áður svo fáðu ráðleggingar þar um hvert sé hægt að leyta í því landi þar sem þú ert búsett.

Ég set með tengil á grein um kvíða sem getur mögulega gagnast þér

Gangi þér vel