Köld húð á mjöðm, rasskinnum og ofarlega á lærum

Góðan daginn
Ég er 57 ára kona, hraust og stunda líkamsrækt reglulega (skokk aðallega). Ég á oft erfitt með að sofna á kvöldin vegna óþæginda í lærum og rasskinnum sem lýsa sér þannig að húðin þarna er ísköld. Mér er ekki kalt í venjulegri merkingu og aðrir hlutar líkamans eru heitir undir sænginni nema að húðin á fyrrnefndum líkamshlutum þarf óratíma til að hitna. Svo kemur að því, oft eftir 2-3 klukkutíma að ég sofna og þegar ég vakna að morgni er mér mátulega hlýtt allsstaðar líka á fyrrgreindum stöðum.
Hvað getur verið að?
Með bestu kveðju,

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Það er erfitt að segja til um hvað er að valda þessum staðbundna kulda í húðinni hjá þér en þetta hljómar svolítið eins og það sé einhver truflun á blóðflæði til húðarinnar á ákveðnu svæði á rassi og læri. Þú tekur ekki fram hvort að þú hafir einhvern tímann hlotið áverka á svæðið eða hafir fengið sár, skurð eða sért með ör þarna en það gæti mögulega verið tenging þar á milli. Þetta getur verið einhver staðbundin truflun á taugastjórnun á æðasamdrætti þannig að æðarnar bregðast ekki við kulda með því að víkka út eins og þær eiga að gera. Ég ráðlegg þér að panta þér tíma hjá heimilislækni og fá betur úr því skorið hver orsökin getur verið fyrir þessu vandamáli, sérstaklega ef þetta er að trufla hjá þér svefninn.

Gangi þér vel