Kláði í spöng

Góðan dag.
Undanfarnar mánuði hef ég fengið ofsakláða á spangarsvæðinu milli legganga og rass og bólgin á því svæði. Hef verið að bera AD krem þar á sem slær á kláðan í skamman tíma, aðrir dagar eru þó mun verri en aðrir.
Kláðaköstin eru ekki tengt tíðarhringnum og dettur mér ekkert í hug sem gæti haft áhrif á þetta.

Hvað á ég að gera?

Góðan dag og takk fyrir fyrirspurnina.

Sveppasýking er ein algengasta orsök kláða og þrota á kynfærasvæði og því það fyrsta sem mig dettur í hug að sé að angra þig. Hægt er að fá bæði stíla og krem án lyfseðils í apóteki sem ég ráðlegg þér að prófa. Einnig er mikilvægt að leyfa svæðinu að lofta t.d. með því að sofa án undirfata en hiti og raki eru þær aðstæður sem sveppur þrífst best í.

Aðrir þættir sem geta ýtt undir sveppasýkingu eru t.d. inntaka sýklalyfja, stera eða getnaðarvarnarpillunar, hormónar, sykursýki, óhófleg neysla á geri, sykri, mjólkurvörum og áfengi. Einnig eru sumar konur viðkvæmar fyrir því að ganga í nærfötum úr gerviefnum eða mjög þröngum fötum, þá þarf einnig að passa að túrtappar, bindi og innlegg innihaldi sem minnst af óæskilegum efnum s.s. klór, gerviefnum og ilmefnum.

Ef þessi ráð duga þér ekki ráðlegg ég þér að panta tíma hjá heimilislækni eða kvensjúkdómalækni til að fá úr um það skorið hvað er að hrjá þig.

Gangi þér vel,

Oddný Þorsteinsdóttir, hjúkrunarfræðingur