Kláði í nefi og koki

Er alltaf að fá svaka kláða í nefið og kokið sem er að gera mig brjálaðan. Vakna nánast alla morgna eins og ég sé kvefaður s.s. stíflað nef eða nefrennsli og oft aumur í hálsinum, en það fer nokkrum klukkutímum eftir að ég vakna. Suma daga hnerra ég frekar oft og einstaka sinnum fæ ég blóðbragð í munninn. Er búinn að vera svona í sirka 1 og hálft ár. Síðustu vikur hef ég svo einstaka sinnum verið að fá blóðnasir og veit ekki af hverju. Var að velta því fyrir mér hvort þetta gæti verið ofnæmiseinkenni eða eitthvað annað?

Ástarþakkir og kveðja

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina

Þessi einkenni gætu verið vegna ofnæmis og þar sem einkennin eru ekki árstíðabundin þá er líklegast að ofnæmisvaldurinn sé rykmaurar, fiður eða dýr ef þau eru í umhverfi þínu.  Ofnæmiskvef getur leitt til myndunar á sepum í nefi sem enn auka á nefstíflueinkennin. Meðferð á ofnæmiskvefi og nefsepum byggist fyrst og fremst á því að gefa nefúða sem inniheldur stera en stundum þarf þó að grípa til annarrar meðferðar. Steragjöfin hefur þau áhrif að bólga og bjúgur í nefslímhúðinni minnkar og nefsepar, ef þeir eru til staðar, minnka. Ef lyfjagjöf dugir ekki til að halda nefsepum í skefjum getur þurft að fjarlægja þá og er það frekar lítil aðgerð. Ef ofnæmisvaldurinn er þekktur er stundum hægt að forðast hann og ef þú reykir ættir þú að hætta því án tafar.

Ég ráðlegg þér að panta tíma hjá heimilislækni og byrja á því að fá skoðun hjá honum. Heimilsilæknirinn getur svo vísað þér áfram til háls, nef og eyrnalæknis og/eða annarra sérfræðinga ef hann telur þörf á því.

Gangi þér vel