Kaldur nætursviti

Hæhæ!

Ég hef nokkrum sinnum farið til læknis útaf þessu en ekkert breytist og fátt um svör og ráðleggingar.

Ég er 24 ára kona og síðustu 3 mánuði sirka hef ég svitnað svo ótrúlega á næturnar að ég get ekki sofið fyrir því lengur. Þetta versnar bara með tímanum. Ég er á concerta 36mg fyrir ADD og hef notað það í 3 ár. Ég tek það samt ekki nema þá daga sem mér finnst ég þurfa þess samkvæmt ráðleggingu frá lækni. Ég er líka á pilluni sem heitir Harmonet en er ný byrjuð á henni en var áður í smá pásu frá pilluni eftir að hafa verið áður á Diane Mite. Ég er líka á lyfjum fyrir kvíða og þunglyndi, en fyrst var ég á Paxetine sem ég byrjaði á Júní en var ráðlagt að prufa að skipta yfir í annað út af þessum nætursvita og ég tek þá núna Venlafaxine Bluefish, tvö hylki af 37,5 mg.

Fyrst þegar ég byrjaði á Paxetine tók ég með gabapentine mylan við vöðvabólgu fyrir svefn og lenti aldrei í þessum svitaköstum. Fyrstu næturnar eftir að það kláraðist lenti ég ekki í þessu en alltíeinu byrjaði þetta. Ég veit ekki hvort að ég tengi þetta við þetta lyf þar sem ég lenti ekki í þessu fyrstu næturnar eftir að ég hætti á því. Ég hef ekki náð að hitta geðlækninn minn upp á síðkastið vegna peningaleysis en fékk þá sobril um daginn hjá öðrum lækni til þess að athuga hvort að það gæti hjálpað ef þetta væri kvíði. Sumar nætur virkaði það en ekki alltaf, þó fannst mér minna um þessi svitaköst þegar eg tók það fyrir svefn. Ef að Sobrilið er að slá á þessa svitamyndun þá væri hún líklega vegna kvíða, ekki satt? Hversvegna duga þá ekki geðlyfin ein og sér þar sem ég man ekki eftir að hafa lent í þessu yfir höfuð áðuren ég byrjaði á kvíðalyfjunum þótt ég var alltaf mjög kvíðin.

Ég hef lesið aðeins um nætursvita og ástæður fyrir honum. Ég sá að hann gæti stafað af því að það væri of heitt inn í herbergi.. Það er ekki málið hjá mér, það er frekar kallt þar þar sem ofninn er bilaður og nær ekki háu hitarstigi. Þannigað núna í vetur vakna ég alltaf ísköld þegar ég byrja að svitna og þarf að skipta um náttföt og sængur á tveggja tíma fresti þar sem sængin blotnar bara i gegn. Ég hef prufað að taka inn aukalega Járn og B, C vítamín og af og til önnur fjölvítamín.

Ég las lika að þetta gæti stafað af þvagfærasýkingu en í nóvember var ég á sýklalyfjum við blöðrubólgu, hefði hún ekki farið með þeim líklegast ef það hefði verið til staðar?. Ég tók það líka fram við kvensjúkdómalækninn minn þá að ég færi valla neitt á túr og hef farið þannig í furðulega langann tíma þótt ég taki alltaf pillupásur. Það kemur rétt svo í einn dag og valla neitt „ferskt blóð“. Honum fannst hinsvegar ekki nauðsynlegt að athuga það nánar og sagði mér að hafa ekki áhyggjur. Ég er ekki ólétt samt 🙂

Vonandi fæ ég einhver svör hér, ég er orðin svo ótrúlega þreytt og leið á þessu og hef ekki nennt að standa i þvi að kikja til læknis upp á síðkastið þar sem mér finnst ég alltaf vera þar og ekkert breytist.

Takk!

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Þú hefur greinilega verið dugleg að afla þér upplýsinga um möglegar orsakir svitans. Aukin svitamyndun er skráð sem algeng aukaverkun Venlafaxin og reyndar Paxetine líka svo ekki er ólíklegt að það sé því um að kenna.

Ef þú ert að kljást við kvíða er það þekkt að truflun getur orðið á nætursvefni og svitamyndun en hvorki Concerta né Venlafaxine eru kvíðastillandi svo þá er eðlilegt að prufa kvíðastillandi lyf eins og Sobril.

Það gæti þurft að taka blóðprufur hjá þér ef það er ekki búið og athuga B vítamin, járn og skjaldkirtilshormón.

Ef búið er að meðhöndla þvagfærasýkingu á svitamyndun að hverfa.

Ég ráðlegg þér að leita áfram til þíns læknis svo þið getið í sameiningu reynt að finna út af hverju þetta stafar en best er að hafa þetta á einni hendi svo samfella verði í úrlausninni.

 

Gangi þér vel.