Inverted nipplur

Halló

Ég er 16 ára stelpa og geirvörturnar mínar hafa ekki komið út (þær eru inverted). Hef séð að það er hægt að fara í aðgerð út í útlöndum til að laga þetta en hef enga hugmynd hvern ég á að leita til til þess að fara í þessa aðgerð. Og meiri segja ef ég þarf að fara í aðgerð. Hef lika séð að það er hægt að gata þær en í því tilfelli þurfa þær að koma út en mínar gera það ekki einu sinni í kuldanum svo ég held að það er vonlaust heh. Mun þetta fara með tímanum eða er ég bara föst svona?, þetta lætur mig vilja ekki láta neinn sjá á mér brjóstin.

Kveðja
16 ára stelpa með leiðinlegar nipplur

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Innfallnar geirvörtur eru alls ekki óalgengar og ekkert óeðlilegt við það. Margar stelpur eru með geirvörturnar dálítið inn á við meðan brjóstin eru að vaxa en svo ýtast þær smám saman út þegar brjóstin þroskast betur. Þú getur hjálpað til með því að örva eða nudda yfir geirvörtuna sjálf td á kvöldin áður en þú ferð að sofa og reynt að toga þær fram. Annað sem þú getur reynt er að kíkja í brjóstagjafahillurnar í apóteki en þar er hægt að fá einskonar geirvörtumótara sem líkist fingurbjörg  og virkar þannig að þetta er sett yfir geirvörtuna og loft sogið út þannig að geirvartan togast út í fingurbjörgina. Í sumum tilfellum gagnast þetta en öðrum ekki.

Það er rétt hjá þér að lýtalæknar geta gert aðgerð til að ná geirvörtunum út en í þínu tilfelli finnst mér alls ekki tímabært að huga að því. Þú ert 16 ára og brjóstin þín eiga að öllum líkindum eftir að taka út endanlegan þroska auk þess sem þetta getur tekið breytingum við meðgöngu og brjóstagjöf. Lýtaaðgerð á geirvörtum getur haft í för með sér minnkaða tilfinningu í þeim og einnig valdið erfiðleikum við brjóstagjöf þegar kemur að barneignum.

Gangi þér vel