Innsnúin hné

Sæl

Ég er 23 ára kona og hnén á mér snúa mikið inn á við. Svo ég lýsi þessu betur þá þurfa tærnar á mér að vísa u.þ.b. 45 gráður til hliðar svo hnén á mér snúi beint fram. Ég tel mig samt sem áður ekki vera útskeifa þar sem tærnar á mér vísa fram þegar ég geng en þá ganga hnén inn á við í hverju skrefi. Nú er ég ný byrjuð aftur í heilsurækt og á mjög erfitt með að gera margar æfingar út af þessu. Auk þess misstíg ég mig rosalega oft jafnvel þó ég gangi bara venjulega og á jafnsléttu og þá sérstaklega á hægri fætinum.
Ef ég stend eða geng lengi (til dæmis við að rölta í Kringlunni) þá fæ ég mikla verki í mjóbakið og stundum iljarnar.

Mínar spurningar eru:
Er þetta með hnén eitthvað sem þarf að laga?
Er eitthvað sem ég get gert til að bæta úr þessu?
Gæti bakverkurinn og það að ég sé að misstíga mig oft tengst hnjánum á mér eða er líklegra að það sé alveg ótengt?

Takk fyrir

 

Sæl

Takk fyrir fyrirspurnina

Það er erfitt að meta hvort að það þurfi að laga hnén án þess að skoða þau. Það er ekki ósennilegt að þú fáir í bakið ef að líkamstaðan er röng. Ég ráðlegg þér að leita til heimilislæknis sem gæti þá vísað þér til bæklunarlæknis til að skoða þetta nánar. Einnig gætir þú farið í svokallaða göngugreiningu hjá sjúkraþjálfara.

Gangi þér vel