Hvít skán undir forhúð

Góðan dag

 

Ég á lítinn gutta sem er nýorðinn 6 ára. Hann var með smá sýkingu í typpinu fyrir um ári síðan og fékk við því Fucidin sem við bárum á reglulega í smá tíma. Síðan þá hef ég fylgst með svæðinu undir forhúðinni (er ekki þröng og því auðvelt að skoða) og þar er alltaf að finna hvíta skán. Hún er mismikil, stundum næstum engin en stundum talsverð.

 

Er þetta eðlilegt og ef ekki hvað er til ráða? Ég hef prófað að bera Fucidin-ið á í smá tíma aftur og eins reynt að hreinsa með rennandi vatni en það þykir stráknum frekar óþægilegt.

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Hvíta skánin er eðlileg framleiðsla á náttúrulegu sleipiefni sem safnast saman undir forhúðinni. Hjá drengjum fyrir kynþroska þarf yfirleitt ekki að hafa af þessu áhyggjur en eftir því sem hann fullorðnast getur þetta valdið sýkingu og ertingu ef þetta er ekki þrifið reglulega. þú þarft að kenna drengnum að þrífa þetta sjálfum. Svæðið er viðkvæmt og mögulega best að nota bómull bleytta með volgu vatni. Forðastu sápu eftir fremsta megni. Nánari leiðbeiningar færðu með því að lesa greinina Hvernig á að þrífa typpi?

Gangi ykkur vel