Hversu smitandi er naglasveppur?

Sæl

Hversu smitandi er naglasveppur?
Það sem ég er helst að leita eftir er hvort óhætt sé að fara í bað með naglasvepp á tánum, hvort það sé nokkur hætta á að sveppasýkingin smitist í fingurneglur eða aðra staði? Ég hef aðeins þorað að fara í sturtu en ekki heitt og notalegt bað síðan ég smitaðist.
Ég finn hvergi svar við þessari spurningu á netinu og ég hef leitað vel og lengi.

Einnig hversu smitandi naglasveppurinn er ef hann er á tánum og gengið er um berfættur heima, er þá mikil hætta á að aðrir heimilismeðlimir geti smitast eða er það aðallega þar sem gólfin eru blaut eins og í sturtu, sundlaugum og ræktinni?

Bestu kveðjur

 

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Þrátt fyrir að naglasveppur sé algengt vandamál þá er eru ekki miklar líkur á að hann smitist manna á milli eða frá tánöglum til fingurnagla í baði. Það þarf stöðuga og nána snertingu til að smit verði og umhverfið þarf að vera rakt og hlýtt til að sveppurinn þrífist. Naglasveppur getur þó smitast yfir í fingurneglur frá tánöglum, en mestar líkur á að það gerist eru ef þú ert að klóra þér á fótunum eða notar sömu naglaáhöld á sýktar táneglur og fingurneglur. Þeir sem oft þvo sér um hendur t.d vegna starfs síns (heilbrigðisstarfsfólk, kokkar o.fl) eru í meiri hættu á að smitast af naglasvepp á fingrum. Gott almennt hreinlæti er mikilvægt en sérstaklega þarf að gæta þess að halda fótum og höndum þurrum og þurrka sér vel á milli tánna. Þú þarft að þvo handklæði eftir notkun, ekki nota sömu naglaáhöld á sýktar táneglur og ósýktar og þú þarft að gæta sérstaklega að þér ef húðin við neglurnar er rofin, því þá getur sveppasýking í húðinni smitast yfir í neglurnar.

Gangi þér vel