Hvernig get ég létt mig?

Spurning:

Góðan dag!

Ég er með 11 vikna gamalt barn á brjósti. Ég þyngdist mjög mikið á meðgöngunni, (35 kíló) hætti að reykja rétt áður en ég varð ólétt.

Ég hef lagt hart að mér frá því að barnið var u.þ.b. mánaðar gamalt, bæði hreyft mig í að minnsta kosti 60 mínútur á hverjum degi, bæði hreyfinguna sem er á stöð 2 á morgnana og um eftirmiðdaginn og ég fer líka í langar gönguferðir daglega. Þar að auki sleppi ég öllum sætindum og fitu, ég smyr ekki einu sinni brauðið. Þrátt fyrir þetta virðist ég ekkert léttast (og ég er alls ekki að svindla)!

Ég léttist um 14 kg. fyrstu vikurnar eftir að ég átti barnið án þess að vera farin að spá sérstaklega í það, en núna þegar ég er virkilega að reyna gerist ekkert. Þetta er farið að angra mig ansi mikið og satt best að segja get ég um lítið annað hugsað. Matur og megrun er nokkuð sem ég hef á heilanum. Hvað er til ráða og hvernig getur staðið á þvíað ég léttist ekkert? Getur þessi þráhyggja mín og vanlíðan yfir vextinum verið vottur af fæðingarþunglyndi? Er óhætt að notast við megrunardrykki s.s Herbalife eða taka inn töflur s.s. appleslim á meðan maður er með barn á brjósti? Kær kveðja, og takk fyrir.

Svar:

Sæl.

Til hamingju með barnið þitt. Þú ert á góðri leið. Þú ert búin að léttast um 14 kg. á 11 vikum sem er í raun meira en æskilegt er, þ.e. það er ekki ráðlegt að léttast um meira en 1 kg. á viku. Ég myndi ráðleggja þér að halda áfram að æfa eins og þú hefur gert og einbeita þér að litla barninu þínu og hætta alveg að hafa megrun og mat á heilanum. Ég myndi alls ekki ráðleggja þér að nota megrunardrykki eða töflur heldur borða um 1800 hitaeiningar á dag af hollum og fitulitlum mat. Á meðan þú ert með barnið á brjósti notar líkami þinn meiri orku en ella til að framleiða mjólkina þannig að með því að halda áfram að hreyfa þig og neyta hæfilegs magns hitaeininga muntu sjá árangur jafnt og þétt. Settu vigtina þína inn í skáp og taktu hana fram á 10 daga fresti í stað þess að stíga á hana tvisvar á dag og svekkja þig yfir þeim tölum sem hún sýnir. Það er skynsamlega leiðin sem virkar og hún krefst þolinmæði. Gangi þér vel.

Kveðja,
Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari