Hvenær eiga eistu drengja að vera komin niður?

Spurning:

Sæl Sólveig.

Sonur minn er nýorðinn 6 ára. Ég fór með hann í svo kallaða 5 ára skoðun í september sl. og kom þá í ljós að annað eistað hans „hoppar“ enn upp í kvið ef svo má segja. Læknirinn bað mig um að fylgjast með þessu og það hef ég gert. Ástandið er óbreytt. Hvert ætti ég að fara með hann til að athuga þetta? Er kannski enn möguleiki á að þetta lagist af sjálfu sér?

Við hvaða aldur er eiginlega miðað við þegar talað er um að eistu drengja þurfa að vera komin niður í pung? Það skal tekið fram að drengurinn minn er vel fyrir ofan meðaltalstölur hvað varðar stærð/þyngd. Hefur það einhver áhrif?

Bestu kveðjur.

Svar:

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Eistun myndast í fósturlífi og eru fyrst staðsett í kviðarholinu á hæð við nýru. Þegar líður að 7 mánuða meðgöngu fara þau að færast niður á við og eru í flestum tilfellum komin niður í pung við fæðingu. Ef eistu eru ekki komin niður í pung við eins árs aldur er nauðsynlegt að komast að því hvað það er sem veldur. Það er hinsvegar vel þekkt fyrirbæri að eistu sem gengin eru niður í pung geti „hoppað“ tímabundið til baka og er þetta orsakað af viðbragðsboga (reflex) sem myndaður er af svokölluðum cremaster vöðva sem kippir í eistað. Í tilfelli drengsins þíns er eistað alveg eðlilegt og í flestum tilfellum hættir þetta þegar kynþroska er náð. Mikilvægt er að þú haldir áfram að fylgjast með eistanu og hafir samband við lækni ef eitthvað breytist.

Gangi ykkur vel,
Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir.