Hvenær átti getnaður sér stað

Hæhæ, ég er komin ca 7 vikur á leið en er í smá veseni… Ég svaf hjá tveimur strákum með stuttu millibili og veit því ekki hver pabbinn er. Fyrsti dagur síðustu blæðinga var 14. apríl og er ég yfirleitt bara á blæðingum í 2-3 daga. Ég svaf svo hjá 2.maí og 13. maí, en aðal vesenið er að ég tók ekki pillunna á milli 9 og 29 apríl, hafði það eitthver áhrif? Hvor er líklegri til að vera pabbinn?

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Konur eru misfrjóar eftir því hvar þær eru staddar í tíðarhringnum. Egglos verður venjulega 14 dögum fyrir upphaf næstu blæðinga. Í kringum egglosið er konan frjó, 3 daga fyrir það og 1 dag á eftir. Líkur eru mestar á að frjóvgun verði ef sæði kemur inn í kerfið á sólarhringnum fyrir egglosið. Annars eru sáðfrumur nokkuð seigar og geta lifað í leginu og eggjaleiðurunum í allt að 3-5 daga eftir samfarir. Miðað við þær upplýsingar sem þú gefur um þinn tíðarhring má segja að það eru meiri líkur á að getnaður hafi orðið í fyrra skiptið en athugaðu samt að við erum að tala um líkur en ekki vissu. Þetta er ekki auðvelt mál og eina leiðin til að segja til með vissu um hvor sé faðirinn er með faðernisprófi eftir að barnið er fætt. Nú skiptir máli að þú hugsir vel næstu skref og sért heiðarleg við sjálfa þig og aðra. Þannig nærð þú vonandi að mynda gott samband við föður barnsins sem bæði þú og barnið munuð búa að til framtíðar.

Gangi þér vel