Hvaða áhrif hefur Guarana?

Spurning:

Hvaða áhrif á líkamann hefur efnið Guarana sem meðal annars finnst í orkudrykkjum?

Svar:

Aðal virka efnið í Guarana er koffein. Ristuð og möluð guaranafræ geta innihaldið allt að 5% koffein en algengt er að brennt kaffiduft innihaldi 1-2% koffein. Önnur virk efni eru t.d. theófyllín og theóbrómín sem eru skyld efni og hefur theóbrómín verið notað við astma (berkjuvíkkandi).

Koffein, theófyllín og theóbrómín eru öll af sama efnaflokki (xanthine) svo að margt af því sem á við um koffein á líka við um hin tvö.

Langtíma stöðug inntaka á koffeini t.d. í formi kaffis eða guarana getur leitt til aukins þols gagnvart sumum áhrifum koffeins. Þegar að inntöku á koffeini er hætt snögglega geta líka komið fráhvarfseinkenni s.s. pirringur og
höfuðverkur.

Koffein hefur ýmsar verkanir. Það er örvandi á miðtaugakerfið og hjálpar til við að halda fólki vakandi og eykur virkni hugans. Berkjuvíkkandi eiginleiki koffeins er minni en theófyllíns (um 40% af virkni theófyllíns) en koffein getur aukið tíðni og dýpt öndunar. Koffein eykur afköst vöðva og er aðeins þvagræsandi. Koffein hefur líka verið mikið notað til að auka áhrif ýmissa verkjastillandi lyfja.

Spurðu lækninn eða lyfjafræðinginn ef nánari upplýsinga er þörf því verkanir koffeins og annarra xanthína eru margar og ýmislegt sem þarf að athuga.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur